Handbolti

Georgía og Finnland mætast í úrslitum Áskorendakeppni Evrópu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Georgía hefur titil að verja í Áskorendakeppni Evrópu.
Georgía hefur titil að verja í Áskorendakeppni Evrópu. Nordic Photos / AFP
Það verða landslið Georgíu og Finnlands sem mætast í úrslitaviðureign Áskorendakeppni EHF, Evrópska handknattleikssambandsins, í janúar næstkomandi.

Í fyrsta sinn fer úrslitaviðureignin fram á sama tíma og úrslitakeppni Evrópumeistaramóts í handbolta. Úrslitaleikurinn verður leikinn í Linz í Austurríki þann 23. janúar næstkomandi - sama dag og lokaumferðin í íslenska riðlinum á EM fer fram.

Leikirnir í íslenska riðlinum verða einnig háðir í Linz og mætir Ísland liði Danmerkur þann 23. janúar. Ísland er einnig með Austurríki og Serbíu í riðli.

Georgía og Finnland báru bæði sigur úr býtum í sínum riðlum en leikirnir fóru fram nú um helgina.

Bæði lið hlutu fullt hús stiga. Í A-riðli varð Georgía í fyrsta sæti, þá Moldavía, Aserbaídsjan og loks Armenía.

Finnar báru sigur úr býtum í B-riðli. Malta varð í öðru sæti, þá Írland og loks Skotland.

Sigurvegari úrslitaleiks Finnlands og Georgíu keppir svo í eins konar álfukeppni Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, í vor. Þar mætast allar þær þjóðir sem báru sigur úr býtum í Áskorendakeppnum heimsálfusambandanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×