Viðskipti erlent

Goldman Sachs vill skila 1200 milljarða fjárveitingu frá ríkinu

Gary Cohn, forstjóri Goldman Sachs, var í viðtali á Wall Street Journal.
Gary Cohn, forstjóri Goldman Sachs, var í viðtali á Wall Street Journal.
Forsvarsmenn Goldman Sachs sögðu í dag að þeir vonuðust til þess að 10 milljarða dala fjárveitingu frá ríkinu yrði skilað til baka svo fljótt sem auðið væri. Fjölmiðlar vestanhafs búast jafnvel við því að lánið verið endurgreitt í næsta mánuði.

Lucan Van Praag, talsmaður Godman Sachs, sagði í dag að vilji stæði til þess að greiða fjárveitinguna til baka eins fljótt og auðið væri, en að fyrirtækið vildi fá samþykki eftirlitsaðila fyrst.

Van Praag var þar með að endurtaka það sem Gary Cohn, forstjóri Goldman Sachs, hafði áður sagt í viðtali sem birt var á vefsíðu Wall Street Journal. Cohn sagði að hann byggist ekki við því að neinn banki, þar með talið Goldman Sachs, gæti skilað til baka peningum fyrr en að búið væri að ljúka við álagspróf. Búist er við að búið verði að ljúka prófunum í lok apríl, en þau mæla fjárþörf stærstu banka Bandaríkjanna ef efnahagsaðstæður versna.

Van Praag segir að stærsta ástæðan fyrir því að bankinn vilji skila fénu frá ríkinu sé að útlit sé fyrir að bankinn þurfi ekki á því að halda. Hann sagði jafnframt að stjórnendur bankans myndu ekki undir neinum kringumstæðum endurgreiða ef þeir teldu að það myndi veikja bankann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×