Handbolti

Einar: Vinnum á sunnudag og þetta fer í fimm leiki

Guðmundur Marínó Ingvarsson skrifar
Einar Jónsson, þjálfari Fram.
Einar Jónsson, þjálfari Fram. Mynd/Daníel

Fram lék afleitan sóknarleik gegn Stjörnunni í kvöld sem kristallast í fyrstu sókn leiksins þegar liðið kastaði boltanum útaf vellinum eftir aðeins átta sekúndna leik án þess að Stjarnan hefði nein áhrif á sóknarmenn Fram.

„Það gaf tóninn," sagði Einar Jónsson þjálfari Fram í leikslok.

„Varnarleikurinn var fínn lengst af en sóknarleikurinn var algjör hörmung. Við erum örugglega með fleiri tapaða bolta en skotfeila og þú vinnur ekki leiki þannig. Eigum við ekki að segja að við fáum sóknarleikinn sem við spiluðum í fyrsta leiknum og varnarleikinn sem við spiluðum í dag í næsta leik og þá klárum við þetta."

Fram virðist ekki ná upp sömu baráttu og sjálfstrausti sem liðið sýndi gegn Haukum í undanúrslitum. „Er það ekki alltaf þannig að það vantar baráttuna og trúnna þegar maður tapar. Mér leið mjög vel fyrir leikinn og fannst þær vera klárar og tilbúnar í leikinn en voru það greinilega ekki. Leikmenn voru að berjast í vörninni og ég vil ekki taka það af þeim. Við stóðum mjög vel varnarlega og við töpuðum þessum leik á sókninni, það er ekki flóknara en það."

Fram er nú komið upp við vegg og má ekki tapa fleiri leikjum ætli liðið að landa titlinum í ár. „Þessi margfrægi veggur. Ef menn eru ekki tilbúnir í næsta leik þá eru menn aldrei tilbúnir. Við leggjumst ekki niður og látum taka okkur í ósmurt. Við berjumst fram í rauðan dauðan og ef við vinnum næsta leik förum við með þetta í fimm leiki, ég get lofað því. Við vinnum á sunnudag og þetta fer í fimm leiki," sagði Einar að lokum við Vísi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×