Handbolti

HM-samantekt: Pólverjar fóru illa með Dani

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Danir máttu horfa upp á tap hjá sínum mönnum í dag.
Danir máttu horfa upp á tap hjá sínum mönnum í dag. Nordic Photos / AFP

Pólverjar gerðu sér lítið fyrir í dag og unnu Evrópumeistara Dana, 32-28, eftir að hafa verið með átta marka forystu í hálfleik, 20-12.

Fyrsta umferð milliriðlakeppninnar á HM í handbolta í Króatíu fór fram í dag og urðu nokkur óvænt úrslit. Þó áttu fáir von á því að Danir myndu liggja flatir fyrir Pólverjum sem hafa átt fremur erfitt uppdráttar á mótinu til þessa.

Þessi lið leika í milliriðli 2 en fyrr í dag í sama riðli gerðu heimsmeistarar Þjóðverja og Serbar jafntefli, 35-35.

Úrslitin í milliriðli 1 voru meira eftir bókinni og Frakkar og Króatar enn með fullt hús stiga þar. Fyrst að Frakkar unnu öruggan sigur á Svíum í dag er ljóst að þessi tvö lið eru í algjörum sérflokki í þeim riðli og nánast örugg með að komast í undanúrslit mótsins.

Vísir tekur hér saman úrslit dagsins en tvö efstu liðin úr hvorum riðli komast áfram í undanúrslit mótsins.

Milliriðill 1:

Úrslit:

Slóvakía - Suður-Kórea 23-20

Frakkland - Svíþjóð 28-21

Ungverjaland - Króatía 22-27

Staðan:

Frakkland 6 stig (+21 í markatölu)

Króatía 6 (+10)

Slóvakía 3 (-6)

Svíþjóð 2 (-5)

Ungverjaland 1 (-10)

Suður-Kórea 0 (-10)

Frakkar hreinlega slátruðu Svíum á fyrsta korteri leiksins og kláruðu leikinn í lausagangi eftir það. Frakkar komu sér í níu marka forystu, 13-4, og var þá strax ljóst að Svíar ættu enga möguleika gegn hinum geysisterku Ólympíumeisturum.

Króatar unnu að sama skapi nokkuð öruggan sigur á Ungverjum í dag, 27-22.

Þess lið geta bæði tryggt sér sæti í undanúrslitum mótsins með því að ná sér í stig á morgun. Ungverjar og Suður-Kóreumenn eiga enga möguleika lengur að ná í undanúrslitin.

Það verður því að teljast afar, afar líklegt að Frakkar og Króatar tryggi sig áfram á morgun og að leikur liðanna á þriðjudag verði í raun hálf þýðingarlaus.

Næstu leikir:

Svíþjóð - Ungverjaland

Suður-Kórea - Frakkland

Króatía - Slóvakía

Milliriðill 2:

Úrslit:

Makedónía - Noregur 27-29

Þýskaland - Serbía 35-35

Pólland - Danmörk 32-28

Staðan:

Þýskaland 5 stig (+17 í markatölu)

Danmörk 4 (+1)

Serbía 3 (0)

Noregur 2 (-3)

Pólland 2 (-4)

Makedónía 2 (-11)

Ólíkt fyrri milliriðlinum er þessi riðill galopinn. Þjóðverjar eru í bestu stöðunni þrátt fyrir að heimsmeistararnir gerðu óvænt jafntefli við Serba í dag.

Ljóst er að sigur á Norðmönnum mun fara langt með að tryggja Þjóðverjum sæti í undanúrslitunum.

En Norðmenn minntu á sig í dag með sigri á Makedóníu og eiga því enn, ásamt Pólverjum og Makedónum, einhverja möguleika á því að koma sér í undanúrslitin.

Tap Dana í dag var þeim væntanlega mjög sárt en þeir fara langt með tryggja sig í undanúrslitin með sigri á Makedónum á morgun. En miðað við gengi liðanna hingað til á mótinu er ómögulegt að spá fyrir framhaldinu.

Næstu leikir:

Serbía - Pólland

Noregur - Þýskaland

Danmörk - Makedónía






Fleiri fréttir

Sjá meira


×