Handbolti

Austurríkismenn vilja halda Degi sem landsliðsþjálfara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson stýrir sínum mönnum í Füchse Berlín
Dagur Sigurðsson stýrir sínum mönnum í Füchse Berlín Mynd/nordic photos/bongarts

Degi Sigurðssyni hefur verið boðið að halda áfram sem landsliðsþjálfari Austurríkis eftir að EM lýkur. Hann er einnig þjálfari Füchse Berlin í Þýskalandi.

Haustið hefur verið annasamt hjá handboltaþjálfaranum Degi Sigurðssyni. Hann er nú á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari þýska úrvalsdeildarfélagsins Füchse Berlín auk þess sem hann hefur áfram sinnt starfi þjálfara austurríska landsliðsins.

Austurríkismenn eru nú að undirbúa sig af fullum krafti fyrir Evrópumeistaramótið í handbolta sem haldið verður þar í landi í janúar næstkomandi. Ísland er einmitt með Austurríki í riðli þar sem Dagur mun mæta mörgum af sínum gömlu félögum í landsliðinu.

„Jú, það hefur verið nóg að gera,“ segir Dagur í léttum dúr. „Það er líka spilað þétt þessa dagana og því í nógu að snúast. Það hefur gefist lítill tími fyrir landsliðið en ég var þó með liðið í heila viku þegar við spiluðum á æfingamóti í Linz.“

Vann Serdarusic í fyrsta leik

Þar báru Austurríkismenn sigur úr býtum og unnu til að mynda sterkt lið Slóvena í fyrsta leik liðsins undir stjórn Noka Serdarusic, fyrrum þjálfara Kiel.

„Ég tel að liðið sé á ágætisróli. Við eigum okkar vandamál eins og öll önnur lið en helst er það að við erum ekki með jafn sterkt lið og önnur í okkar riðli. Markmiðið er auðvitað að komast upp úr riðlinum en hvort það er raunhæft get ég ekki fullyrt um. Austurríki er með lakasta liðið á pappírnum en á móti kemur að við verðum á heimavelli og það getur vel unnið með okkur,“ segir Dagur.

Upphaflega samdi Dagur um að stýra liðinu fram yfir EM en þó svo að því verkefni sé ekki lokið vilja forráðamenn austurríska handboltasambandsins halda Degi sem landsliðsþjálfara.

Tímafrekt að þjálfa tvö lið

„Mér hefur verið boðið að halda áfram með liðið og ég hef verið svolítið að teygja lopann. Ég vil sjá fyrst hvernig hlutirnir þróast hér og hvort ég treysti mér til að vera áfram með bæði lið áður en ég svara. Það þekkist þó vel enda er ég ekki sá eini sem gerir þetta í þýsku úrvalsdeildinni. En þetta er afar tímafrekt og einhvern tímann verður maður að geta hlaðið batteríin og tekið sér frí.“

Dagur segir að almenn ánægja sé með gengi austurríska landsliðsins. „Þeir eru ánægður með hvað það virðist vera góður bragur á liðinu. Hingað til hefur austurríska landsliðið ekki þótt merkilegur pappír en við höfum verið að standa í sterkum liðum þegar við spilum vel og erum ef til vill örlítið vanmetnir. En það þarf líka hafa það í huga að við höfum bara verið að spila æfingaleiki og allir mínir leikmenn hafa enga reynslu af því að spila á stórmótum. Ég veit vel hvað það getur verið erfitt og mikilvægt að menn séu með hausinn í lagi í slíkum törnum.“

Hann á þó von á því að svara Austurríkismönnum fyrir áramót. „Það er svo sem ekkert stress vegna málsins en ég á von á því að fá símtal fljótlega þar sem ég verð væntanlega krafinn um svar.“

Skrýtið að mæta æskufélögunum

Hinn 21. janúar næstkomandi munu Austurríki og Ísland eigast við á EM. Dagur getur ekki neitað því að það verði sérstök upplifun fyrir sig.

„Ég á marga góða vini í liðinu og sumir þeirra eru æskuvinir, eins og Ólafur [Stefánsson] og Óskar Bjarni [Óskarsson, aðstoðarþjálfari]. Ég ólst upp með þessum strákum og það verður sérkennilegt að mæta þeim í þessum leik.“

En skyldi hann fá samviskubit ef honum tekst að vinna sigur á íslenska liðinu og jafnvel sjá til þess að Ísland komist ekki áfram í milliriðlakeppnina?

„Nei, það held ég ekki. Þetta snýst fyrst og fremst um að vinna leikina óháð því hver andstæðingurinn er og þeir komast áfram sem eiga það skilið.“eirikur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×