Viðskipti erlent

Stórbankinn RBS rambaði á barmi gjaldþrots fyrir ári

Staða stórbankans Royal Bank of Scotland (RBS) var mun verri en áður var talið fyrir ári síðan þegar bresk stjórnvöld komu bankanum til bjargar. RBS rambaði á barmi gjaldþrots og mátti litlu muna að hann færi á hliðina.

Bresk stjórnvöld komu RBS til hjálpar í október á síðasta ári en dagana þar á undan glímdi bankinn við áhlaup viðskiptavina sinna sem tóku út stórar fjárhæðir af reikningum sínum í stríðum straumum.

Samkvæmt frétt um málið í Financial Times fossuðu á milli einn og tveir milljarðar punda, eða 200 til 400 milljarðar kr., út úr bankanum á hverjum degi þetta tímabil fyrir ári síðan. Financial Times hefur þetta eftir ónafngreindum heimildum.

Financial Times segir að RBS hefði fyrir löngu verið kominn í þrot þessa daga í október ef ekki hefði komið til gífurlegur fjárhagsstuðningur frá Englandsbanka.

Þessum fjárhagsstuðningi var síðan breytt í eignarhald hjá RBS og í dag á breska ríkið 80% hlut í bankanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×