Viðskipti erlent

Risademantur fannst í Suður-Afríku

Risademantur fannst í vikunni í Cullinan námunni í Suður-Afríku en náman er þekkt fyrir að þar hafa stærstu demantar í heimi fundist. Þessi sem hér um ræðir er 507 karöt, eða 100 grömm, að stærð og er verðmæti hans áætlað vera rúmlega 12 milljarðar kr.

 

Samkvæmt frétt um málið í Berlingske Tidende fundust þrír aðrir stórir hvítir demantar samhliða þessum. Var einn þeirra 168 karöt að stærð en hinir tveir voru 58 og 53 karöt.

 

Cullinan náman, sem er rétt utan Petoriu, gaf af sér risademant í fyrra sem mældist 480 karöt. Náman er hinsvegar heimsþekkt fyrir að árið 1905 fannst þar demantur sem var 3.106 karöt eða yfir 600 grömm að stærð. Hann var skorinn niður í nokkra minni steina sem allir prýða nú bresku krúnudjásnin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×