Viðskipti erlent

Kolsvört hagspá ASÍ

Framundan er mesta samdráttarskeið sem íslenskt efnahaglíf hefur gengið í gegnum á síðari árum. Fyrir höndum eru tvö erfið ár en það tekur að rofa til að nýju á árinu 2011.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri hagspá hagdeildar ASÍ sem birt hefur verið á vefsíðu samtakanna. Útlit er fyrir að niðursveiflan verið bæði dýpri og lengri en fyrstu spár í haust gerðu ráð fyrir.

Erfitt hefur reynst að koma starfsemi bankakerfisins aftur í viðunandi horf eftir bankahrunið og skapa tiltrú á íslenskt efnahagslíf auk þess sem horfur í erlendis fara versnandi. Næstu tvö árin dregur mjög úr umsvifum í hagkerfinu og samdráttur í landsframleiðslu verður verulegur.

Umskipti verða á árinu 2011 þegar landsframleiðslan tekur að aukast að nýju. Þessi sýn byggir á þeirri forsendur að það takist að skapa traust á íslensku efnahagslífi á ný og blása lífi í íslensku krónuna. Ef það tekst ekki, er hætta á að hagkerfið festist í fjötrum.

Horfur á vinnumarkaði eru dökkar allt tímabilið og útlit fyrir að atvinnuleysi verði á bilinu 8-9% næstu þrjú árin. Ólíklegt er að draga fari úr atvinnuleysi fyrr en á síðari hluta ársins 2011.

Verðbólga gengur hratt niður á næstu mánuðum og verður komin undir 3% í lok þessa árs. Samhliða lækkandi verðbólgu má búast við að Seðlabankinn lækki stýrivexti.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×