Viðskipti erlent

Dauður banki greiðir starfsmönnum stóra bónusa

Fjárfestingarbankinn Lehman Brothers er dauður fyrir löngu síðan en það kemur ekki í veg fyrir að bankinn greiði starfsmönnum sínum stóra bónusa. Lehman Brothers varð gjaldþrota með miklum hvelli í fyrrahaust og miða margir upphaf fjármálakreppunnar við hrun bankans.

Á skrifstofum Lehman Brothers í London er þó enn verið að ráða starfsmenn til bankans og að sögn business.dk fékk bankinn í síðustu viku orð dómara fyrir því að hann mætti greiða starfsmönnum sínum 50 milljónir dollara, eða 6,4 miljarða kr. í bónusa.

Það er tiltektin eftir gjaldþrotið sem kallar á fleiri starfsmenn að bankanum og þeir þurfa að fá góð laun fyrir því annars haldast þeir ekki í starfinu og hindra þannig að tiltektin verði eins vel úr garði gerð og hugsanlegt er. Einhvern veginn þannig hljómar rökstuðningurinn fyrir bónusgreiðslunum.

„Það þarf nefnilega svo mikla tiltekt að aðeins skörpustu fjármálasérfræðingar og endurskoðendur geta komist til botns í skjalabunkunum og hinum mörgu kröfum frá kröfuhöfunum," segir í fréttinni á business.dk.

Skrifstofa Lehman Brothers í London var sú stærsta utan höfuðstöðva bankans í Bandaríkjunum. Í góðærinu unnu þar um 5.300 manns. Þegar bankinn féll voru 2.800 þeirra yfirfærðir til Nomura en 1.000 voru reknir og aðrir 1.000 fundu sér annað starf.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×