Handbolti

Lítum á þetta sem hnífjafnan leik

Kristín Clausen, fyrirliði Stjörnunnar, segir sitt lið verða að bæta varnarleikinn ef það eigi að leggja FH að velli í bikarúrslitaleiknum í dag.

"Við urðum fyrir áfalli þegar við misstum Þorgerði (Atladóttur), en leikurinn leggst að öðru leyti vel í okkur og er skemmtilegasti leikur ársins," sagði fyrirliðinn í samtali við Vísi.

"Hefðin og reynslan í okkar liði kemur sér mjög vel þegar maður er að fara að spila úrslitaleik í bikar og það hjálpar okkur að hafa gert þetta áður, því maður þarf að vinna sig hægt og rólega inn í leikinn," sagði Kristín.

Sumir vilja meina að Stjarnan eigi sigurinn vísan í leiknum en Kristín lítur þetta öðrum augum.

"Ég held að við hugsum þetta allt öðruvísi en aðrir, því við sjáum þetta bara sem 50/50 leik. Ég hef áður farið í Höllina þar sem við "eigum að vinna" en þetta er allt öðruvísi og við tökum þessu alls ekki sem gefnum hlut," sagði Kristín.

"Við þurfum að bæta varnarleikinn okkar því vörnin hefur ekki verið góð undanfarið. Það hefur kannski vantað smá baráttu og grimmd í okkur í varnarleiknum en ég treysti því að baráttan verði til staðar í bikarúrslitaleik og allir vinni saman."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×