Handbolti

Fyrstu deildarmeistarnir sem vinna ekki leik í úrslitakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka.
Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka. Mynd/Anton

Haukakonur urðu í gær fyrstu deildarmeistararnir í sögu úrslitakeppni kvenna í handbolta sem ná ekki að vinna leik í úrslitakeppni. Haukar töpuðu þá öðrum leiknum í röð á móti Fram í Safamýri eftir framlengdan leik í undanúrslitaeinvígi liðanna í N1 deild kvenna.

Haukaliðið vann 18 af 21 leik sínum í deildarkeppninni og tapaði aðeins einum. Haukar unnu þar tvo af þremur leikjum sínum á móti Fram en einum leiknum lauk með jafntefli.

Haukaliðinu hefur ekki gengið vel í "úrslitaleikjum" sínum í vetur. Liðið tapaði 27-28 fyrir Stjörnunni í úrslitaleik deildarbikarsins og síðan 24-30 á heimavelli á móti Stjörnunni í undanúrslitum SS-bikarsins.

Haukarnir töpuðu síðan báðum leikjunum á móti Fram í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Fjögur af fimm töpum vetrarins hafa því komið í svokölluðum úrslitaleikjum.

Úrslitakeppnin fer nú í fyrsta sinn fram síðan árið 2005. Víkingsliðið frá árinu 2000 er síðasta deildarmeistaraliðið sem tókst ekki að tryggja sér sæti í lokaúrslitum en liðið vann engu að síður 2-0 sigur á Haukum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem þá innihélt átta lið.

Allir aðrir deildarmeistarar í sögu úrslitakeppni kvenna frá 1992-2005 hafa komist alla leið í lokaúrslitin um Íslandsmeistaratitilinn og níu þeirra hafa síðan tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×