Handbolti

Annar sigur hjá GOG

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson í leik með íslenska landsliðinu.
Ásgeir Örn Hallgrímsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Stefán

GOG vann sinn annan sigur í jafn mörgum leikjum í úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta nú um helgina.

GOG vann sigur á Kolding á útivelli, 40-31, og hefur því unnið báða leiki sína í úrslitakeppnina með miklum mun. Fyrst vann GOG sigur á deildarmeisturum Álaborgar, 38-25.

GOG varð í áttunda sæti deildarinnar og hefur því gengi liðsins í úrslitakeppninni komið nokkuð á óvart. Hún fer fram með breyttu sniði nú í ár en efstu átta liðin skiptust í tvo riðla.

Liðin í riðlunum mætast innbyrðist bæði heima og að heiman. Efstu liðin úr hvorum riðli mætast svo í úrslitum um danska meistaratitilinn, einnig heima og að heiman. Þessi tvö lið hafa þá einnig tryggt sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði fimm mörk fyrir GOG en Snorri Steinn Guðjónsson lék ekki með vegna meiðsla.

Í hinum riðlinum vann FCK sigur á Skjern, 30-29. Guðlaugur Arnarsson komst ekki á blað í leiknum og Arnór Atlason lék ekki með vegna meiðsla.

Staðan í riðli 1:

GOG 4 stig

Álaborg 4 stig*

Kolding 3 stig**

Viborg 0 stig

Staðan í riðli 2:

Bjerringbro-Silkeborg 5 stig**

FCK Håndbold 5 stig*

Team Tvis Holstebro 1 stig

Skjern 0 stig

* Tók með sér tvö stig úr deildarkeppninni

** Tók með sér eitt stig úr deildarkeppninni






Fleiri fréttir

Sjá meira


×