Viðskipti erlent

Hagnaður Ratiopharm umfram væntingar

Hagnaður þýska samheitalyfjafyrirtækisins Ratiopharm verður töluvert umfram eigin væntingar í ár. Ratiopharm reiknaði með að brúttóhagnaðurinn, það er hagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármálaliði, yrði 200 milljónir evra en hann stefni í að verða 300 milljónir evra eða um 55 milljarðar kr.

Eins og fram hefur komið í fréttum er Ratiopharm til sölu en það er í eigu Merckle fjölskyldunnar. Salan á að hjálpa til við að grynnka á skuldum fjölskyldunnar og er hluti af samkomulagi sem Merckle gerði við helstu viðskiptabanka sína, Commerzbank og Royal Bank of Scotland.

Actavis er enn í hópi sex áhugasamra kaupenda að Ratiopharm en verðmiðinn á fyrirtækinu er hátt í þrír milljarðar evra. Fregnir hafa borist um að eina fjármálafyrirtækið sem eftir er í hópnum, hið sænska EQT, hafi sóst eftir samvinnu við Actavis um kaupin á Ratiopharm. EQT er í eigu Wallenberg fjölskyldunnar í Svíþjóð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×