Handbolti

Arnór með fimm í sigri FCK

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Atlason í leik með FCK.
Arnór Atlason í leik með FCK. Mynd/Birkir Baldvinsson
FC Kaupmannahöfn vann í gær góðan sigur á sænsku meisturunum í Alingsås í Meistaradeild Evrópu, 33-21, á útivelli.

Eins og gefur til kynna voru yfirburðir danska liðsins miklir. Arnór Atlason var á meðal markahæstu leikmanna FCK með fimm mörk.

FCK leikur í C-riðli og hefur unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum. Ciudad Real er á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir sextán marka sigur á norsku meisturunum í Fyllingen í gær, 40-24. Andri Stefan Guðrúnarson skoraði eitt mark fyrir Fyllingen í leiknum.

Þá var einnig leikið í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í GOG unnu nauman sigur á Lemvig, 26-25, og hafa unnið sex leiki af sjö á tímabilinu til þessa. Ásgeir Örn Hallgrímsson er þó enn frá vegna meiðsla.

Þá skoraði Gísli Kristjánsson fjögur mörk fyrir Nordsjælland sem vann fjögurra marka sigur á Álaborg, 35-31.

Bjerringbro-Silkeborg er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir sjö umferðir en GOG er í þriðja sæti með tólf stig. Nordsjælland er í níunda sæti með sex stig.

Lübbecke tapaði naumlega fyrir Göppingen, 31-30, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í gærkvöldi. Heiðmar Felixsson og Þórir Ólafsson skoruðu fjögur mörk hvor í leiknum.

Emsdetten, lið Hreiðars Guðmundssonar markvarðar, vann góðan sigur á Anhalt Bernburg á útiveli í norðurriðli þýsku B-deildarinnar. Í suðurriðlinum tapaði Aue fyrir Concordia Delitzsch á útivelli, 30-28. Agnar Jón Agnarsson skoraði fimm mörk fyrir Aue í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×