Formúla 1

Alonso vill enda ferilinn með Ferrari

Fernando Alonso var umvafinn fjölmiðlamönnum útaf samningnum við Ferrari i dag.
Fernando Alonso var umvafinn fjölmiðlamönnum útaf samningnum við Ferrari i dag. mynd: Getty Images

Fernando Alonso gerði þriggja ára samning við Ferrari og byrjar að keyra með liðinu á næsta ári. Hann kemur í stað Kimi Raikkönen og ekur með Felipe Massa á næsta ári.

"Vonandi tekst mér að ljúka ferlinum með Ferrari og með marga sigra í farteskinu. Ég trúi því að Ferrari verði síðasta lið mitt í íþróttinni. Það væri skref afturábak að fara eitthvað annað. Ég vil ljúka ferlinum með Ferrari", sagði Alonso á Suzuka brautinni í Japan í dag.

Keppt verður á brautinni um helgina og Alonso ekur með Renault. Ferrari tilkynnti ráðningu hans í gær.

"Mig langar að vinna marga titla með Ferrari eins og Schumacher, en það verður ekki auðvelt. Ég mun gefa 100% í hverja keppni eins og alltaf og tel ferli mínum vel borgið hjá Ferrari. Að vinna titla með Ferrari yrði sérstök upplifun", sagði Alonso sem vann tvo titla með Renault.

Ítarlega verður fjallað um mál Alonso í þættinum Rásmarkið á Stöð 2 Sport kl. 20.00 í kvöld.

Sjá brautarlýsingu frá Suzuka




Fleiri fréttir

Sjá meira


×