Viðskipti erlent

Berlusconi verður að borga 120 milljarða í sekt

Fininvest, félag í eigu Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, hefur verið dæmt til að borga yfir 120 milljarða kr. í sekt. Sektin á Fininvest að greiða fyrrum keppinaut sínum, fjölmiðlafyrirtækinu CIR sem nú er gjaldþrota.

 

Það var dómari í Mílan sem kvað upp þennan úrskurð en í honum segir að CIR eigi rétt á þessum bótum frá Fininvest sökum þess að Fininvest eyðilagði verðmæti hlutar CIR í Mandadori stærsta útgáfufélagi Ítalíu með skemmdarverkum.

 

Marina Berlusconi forstjóri Fininvest og dóttir forsætisráðherrans segir að málinu verði áfrýjað. Samkvæmt frásögn á vefsíðunni di.se ná málaferlin allt aftur til 1990 þegar Silvio Berlusconi settist sjálfur í forstjórastólinn hjá Fininvest og kastaði fyrrum forstjóra þess, De Benedetti út af skrifstofunni.

 

„Þetta sannar enn á ný ólöglegar aðferðir Fininvest," segir De Benedetti.

 

Silvio Berlusconi, sem á fjölda af dagblöðum og stjórnar þremur sjónvarpsstöðvum á Ítalíu, hefur verið ákærður um spillingu nokkrum sinnum. Í fyrra kom hann í gegn löggjöf á ítalska þinginu sem kemur í veg fyrir að hægt sé að saksækja hann meðan hann gegnir starfi forsætisráðherra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×