Viðskipti erlent

Woolworths vakin upp frá dauða sem netverslun

Verslunarkeðjan Woolworths sem varð gjaldþrota í lok síðasta árs verður vakin upp frá dauða sem netverslun. Baugur átti hlut í Woolworths er keðjan varð gjaldþrota en síðustu af 807 verslunum keðjunnar voru seldar í síðasta mánuði.

Blaðið Guardian segir að stærsta netverslun Bretlands, Shop Direct, hafi nú fest kaup á Woolworths vörumerkinu og að næsta sumar muni sala hefjast undir því merki á vegum Shop Direct.

Mark Newton-Jones forstjóri Shop Direct segir að Bretar hafi elskað Woolworths enda starfaði verslunarkeðjan þar í landi í eina öld. "Woolworth er stór hluti af sögu smásöluverlsunar í Bretlandi og því vildum við halda merkinu áfram á lofti," segir Jones.

Kaupverðið er ekki gefið upp en samtíms kaupum á Woolworths merkinu festi Shop Direct kaup á Ladybird barnafatadeild keðjunnar.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×