Enski boltinn

Hundrað ár frá fæðingu Matt Busby

Sir Alex og félagar reyna að verja Evróputitilinn annað kvöld
Sir Alex og félagar reyna að verja Evróputitilinn annað kvöld NordicPhotos/GettyImages

Stuðningsmenn Manchester United hafa haft margar ástæður til að fagna undanfarið og hvernig sem fer í úrslitaleiknum í meistaradeildinni á morgun, geta þeir leyft sér að halda daginn í dag hátíðlegan.

Í dag eru nefnilega 100 ár frá fæðingu goðsagnarinnar Matt Busby sem þjálfaði liðið á árunum 1945-69 og stýrði því til Evrópumeistaratitilsins árið 1968.

Það er ekki það eina, heldur eru líka nákvæmlega tíu ár í dag frá því Manchester United vann Evrópubikarinn á dramatískan hátt í Barcelona árið 1999 þegar liðið vann Bayern Munchen 2-1 í frægum úrslitaleik.

Bobby Charlton, besti leikmaður Matt Busby hjá United á sínum tíma, er ekki frá því að örlögin hafi gripið í taumana þennan stóra dag í sögu félagsins fyrir tíu árum.

"Ég er viss um að Busby var þarna í anda og sá hefur verið ánægður. matt var líka alltaf hrifinn af Alex Ferguson og starfi hans hjá félaginu. Það var Busby sem lagði grunninn að því sem Ferguson hefur síðan haldið áfram að byggja á. 1999 var ótrúleg leiktíð sem ég mun aldrei gleyma," sagði Charlton.

United-menn munu eflaust óska eftir andlegri nærveru Matt Busby annað kvöld þegar þeir mæta Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Róm.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×