Viðskipti erlent

Yfirtakan á Singer & Friedlander rannsökuð sérstaklega

Þingnefnd sú á breska þinginu sem er að rannsaka orsakir bankakreppunnar þar í landi hefur ákveðið að rannsaka sérstaklega yfirtöku Kaupþings á Singer & Friedlander bankanum árið 2005.

Nefndin ákvað þetta eftir vitnaleiðslur í gærdag þar sem m.a. var rætt við Tony Shearer fyrrum forstjóra Singer & Friedlander og yfirmenn hjá breska fjármálaeftirlitinu.

Samkvæmt frétt um málið í blaðinu The Times ætlar formaður þingnefndarinnar, John McFall, að óska eftir því að aðrir yfirmenn og stjórnendur Singer & Friedlander komi fyrir nefndina.

Þetta var ákveðið eftir vitnisburð Tony Shearer þar sem hann sagði m.a. að hann hefði reynt að fá breska fjármálaeftirlitið til að stöðva yfirtökuna..."þar sem stjórnendur Kaupþings væru ekki hæfir til að reka bankann" eins og hann komst að orði.

Fulltrúi breska fjármálaeftirlitsins (FSA) sagði að þeir hefðu ekki fundið neina ástæðu til að stöðva yfirtökuna eftir að íslenska fjármálaeftirlitið tjáði þeim að allt væri í stakasta lagi með Kaupþing.

Þingnefndin hefur ákveðið að kalla fulltrúa FSA aftur fyrir síðar í mánuðinum þar sem ekki fengust skýr svör í gærdag um hlutverk FSA í hruni Singer & Friedlander í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×