Enski boltinn

Owen gæti verið frá í þrjár vikur - meiddist á nára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen skiptir við Dimitar Berbatov eftir aðeins 20 mínútur.
Michael Owen skiptir við Dimitar Berbatov eftir aðeins 20 mínútur. Mynd/AFP

Michael Owen, framherji Manchester United, þurfti að yfirgefa völlinn eftir aðeins 20 mínútur í 2-1 sigri liðsins á Þýskalandsmeisturum Wolfsburg á Old Trafford í gær. Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, var í stúkunni og það voru því súr og svekkjandi skrefin sem Owen þurfti að taka þegar hann fór svo snemma af velli.

„Það er erfitt að átta sig á nárameiðslum. Hann gæti verið frá í tvær til þrjár vikur," sagði Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. „Hann er í frábæru líkamlegu formi svo ég hef ekki miklar áhyggjur af því. Við meðhöndlum þetta bara eins og venjuleg nárameiðsli," sagði Ferguson.

Michael Owen hefur glímt við mikið af meiðslum síðustu árin á sínum ferli og þetta stutta gaman í gær er ekki til að hjálpa honum að losna við það umtal. Það er líka nokkuð ljóst að hann er ekki á leiðinni inn í enska landsliðshópinn fyrir næstu verkefni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×