Viðskipti erlent

Dæmi um persónulega harmleiki vegna Icesave

Telma Tómasson skrifar

Talsmaður sparifjáreigenda í Hollandi segir dæmi um persónulega harmleiki vegna tapaðs fjár af Icesave reikningum.

Gerard van Vliet, talsmaður hollensku sparifjáreigendanna, sendi frá sér fréttatilkynningu í morgun, í tilefni þess að nú er rétt um ár liðið frá íslenska bankahruninu. Gagnrýnir hann harðlega að ekki hafi enn verið fundnar viðunandi lausnir vegna Icesave í Hollandi og að sparifjáreigendur hafi ekki enn fengið tjón sitt að fullu bætt, eins og hinir íslensku, bresku og þýsku.

Hart er deilt á Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sem er ekki sagður hafa staðið sig þrátt fyrir þrýsting frá þingmönnum.

Van Vliet segir dæmi um að tapað fé af Icesave reikningum hafi leikið hollenska sparifjáreigendur grátt og jafnvel leitt til persónulegra vandamála. Nefnir hann sem dæmi að fólk hafi neyðst til að selja hús sín, misst aðrar eignir, að slitnað hafi upp úr samböndum og hjónaböndum og fólk hafi veikst.

Verður þrýst á Wouter Bos um að sparifjáreigendurnir fái skýr svör í þessari viku um lausn á málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×