Handbolti

Rannsókn hætt á mútumáli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Uwe Schwenker ræðir við fjölmiðlamenn á mánudagskvöldið.
Uwe Schwenker ræðir við fjölmiðlamenn á mánudagskvöldið. Nordic Photos / Bongarts

Forráðamenn þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta hafa ákveðið að hætta að rannsaka þær ásakanir um að Kiel hafi mútað dómurum í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu árið 2007.

Kiel mætti þá Flensburg í síðari úrslitaleik liðanna eftir að þeim fyrri lauk með jafntefli. Kiel vann síðari leikinn með tveggja marka mun.

Ásakanirnar birtust fyrst í Flensburger Tagesblatt á mánudagsmorgun. Upphafið að því að málið kom fram virðist vera það að Noka Serdarusic, sem var þjálfari Kiel á þessum tíma, hafi greint forráðamönnum Rhein-Neckar Löwen frá mútunum.

Til stóð að Serdarusic tæki við þjálfun Rhein-Neckar Löwen en fyrir skömmu var tilkynnt að samningi hans við félagið hefði verið rift. Ástæðan var sögð vera sú að Serdarusic hefði gengist undir aðgerð á hné og treysti sér ekki í starfið af þeim sökum.

Síðan að fréttin birtist hafa þó aldrei nein sönnunargögn komið fram í málinu. Í raun er því um sögusagnir að ræða. Eina afleiðingin af þessu máli virðist hins vegar vera að Serdarusic tekur ekki við þjálfun Rhein-Neckar Löwen.

Jesper Nielsen, einn forráðamanna Rhein-Neckar Löwen, hefur staðfest í samtali við fjölmiðla að Serdarusic hefði ekki verið stætt á að starfa hjá félaginu miðað við þær upplýsingar sem það hefði.

Í gær greindi svo Reiner Witte, forseti þýsku úrvalsdeildarinnar, frá því að málið yrði tekið af dagskrá þeirra.

„Við skoðuðum málið sem sögusagnir. Það liggja engin sönnunargögn fyrir í því," sagði Witte.

Uwe Schwenker, framkvæmdarstjóri Kiel, var ánægður með þetta. „Ég hef alltaf sagt að það er ekkert hæft í þessum ásökunum. En handboltinn hefur hlotið mikinn skaða af þeim fyrirsögnum sem hefur verið slegið upp á síðustu dögum."

Kjartan Steinbach var formaður dómaranefndar Alþjóða handknattleikssambandsins frá 1996 til 2004 og sagði í samtali við Vísi í gær að nánast ómögulegt væri að sanna mútúmál sem þessi - þó efaðist hann um að stórlið eins og Kiel færi að beita slíkum brögðum.

Alfreð Gíslason er nú þjálfari Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×