Handbolti

Þýskir fjölmiðlar greina frá kæru Framara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Viggó Sigurðsson, fyrrum þjálfari Fram.
Viggó Sigurðsson, fyrrum þjálfari Fram. Mynd/Valli
Þýskir fjölmiðlar hafa greint frá kæru handknattleiksdeildar Fram vegna leiks liðsins gegn slóvakíska liðinu Tatran Presov í EHF-bikarkeppninni.

Fram féll úr leik í keppninni eftir að hafa tapað síðari leik liðanna með stórum mun, 38-17. Báðir leikirnir fóru fram í Slóvakíu en fyrri leiknum lauk með fjögurra marka sigri Tatran Presov, 27-23.

Í síðari leiknum fengu þrír Framarar að líta rauða spjaldið og fékk Tatran Presov átta vítaköst í leiknum - Fram ekkert. Slóvenskir dómarar dæmdu leikinn.

„Ég vissi strax að þarna væri eitthvað misjafnt á ferðinni," sagði Viggó Sigurðsson, þáverandi þjálfari Fram, í samtali við heimasíðu þýsku sjónvarpsstöðvarinnar ZDF.

Viggó greindi frá því að hann hefði séð dómarana með bæði fulltrúa Tatran Presov og ungverskum fulltrúa Evrópska handknattleikssambandsins þar sem þeir sátu og drukku á hótelbarnum kvöldið fyrir leik.

„Það var mikið magn af víni sem flæddi þar," lýsti Viggó. „Og síðar komu tvær laglegar ungar konur og settust hjá þeim. Þær fóru síðan á sama tíma og dómararnir."

Fréttamaður ZDF spurði þá Viggó hvort þetta hafi verið vændiskonur. „Þannig leit þetta út," svaraði hann.

Fulltrúar höfuðstöðva EHF í Vínarborg í Austurríki hafa þegar sagt að leikurinn yrði rannsakaður en að myndbandsupptökur frá leiknum væru mjög lélegar.

Fram kemur í frétt ZDF um málið að dómaraparið frá Slóveníu, Darko Repensek og Janko Pozeznik, liggi þegar undir grun um að hafa þegið mútur vegna leiks Kiel og Ciudad Real í úrslitum Meistaradeildar Evrópu árið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×