Erlent

Yfirvinna talin orsök þunglyndis og kvíða

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Fólki sem vinnur yfirvinnu er hættara við þunglyndi og kvíða ef marka má niðurstöður norskrar rannsóknar.Það var hópur rannsóknarfólks við Háskólann í Björgvin í Noregi sem skoðaði rúmlega 10.000 manna hóp sem vann ýmist 40 tíma á viku og skemur eða 41 til 100 tíma.

Það var hópur rannsóknarfólks við Háskólann í Björgvin í Noregi sem skoðaði rúmlega 10.000 manna hóp sem vann ýmist 40 tíma á viku og skemur eða 41 til 100 tíma.

Stuðst var við spurningalista sem lagður var fyrir hvern og einn. Útkoman var sú að jafnvel hófleg yfirvinna yki hættuna á andlegum erfiðleikum. Tengdi stjórnandi rannsóknarinnar þetta við aukna streitu sem fylgir yfirvinnunni en útilokaði á hinn bóginn ekki að fólk sem væri veikara fyrir þunglyndi og kvíða réði sig frekar til starfa sem krefjast langs vinnudags.

Þetta ætti meðal annars við um fólk með takmarkaða menntun og starfshæfni. Fylgnin var mest hjá þeim sem unnu langan vinnudag og erfiðis- eða vaktavinnu. Tilskipun frá Evrópusambandinu gerir ráð fyrir því að hámarkslengd vinnuvikunnar á sambandssvæðinu skuli vera 48 klukkustundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×