Þýskur maður varð svo reiður þegar kærasta hans kveikti í sígarettu að hann greip duftslökkvitæki og tæmdi það yfir hana og íbúð hennar. Þetta var í bænum Bielfeld í vestanverðu Þýskalandi.
Lögreglumenn sem komu á vettvang sögðu að það væri eins og hveitisprengja hefði sprungið í íbúðinni. Bæði loft og veggir hafi verið þaktir dufti. Hinum reiða elskhuga tókst þó að slökkva í sígarettunni.
Lögreglan segir að maðurinn hafi ekki sýnt nein merki um iðrun yfir því sem hann hafði gert. Og hann sagði þeim að hann væri hættur með kærustunni.