Knattspyrnusamband Evrópu hefur tekið kvörtun danska liðsins Álaborgar til greina og fellt niður leikbann sem Michael Beauchamp átti að fá fyrir rauða spjaldið sem hann fékk í leik sinna manna gegn Celtic í fyrrakvöld.
Beauchamp fékk spjaldið á 79. mínútu en dómari leiksins gaf þar röngum manni reisupassann. Hið rétta var að Michael Jakobsen braut af sér og hefur Knattspyrnusamband Evrópu dæmt hann í eins leiks bann.
Jakobsen missir þar af næsta leik Álaborgar í Meistaradeildinni gegn Manchester United í Danmörku þann 30. september næstkomandi.