Damon Albarn hefur staðfest að Blur ætli að koma aftur saman á næsta ári með gítarleikarann Graham Coxon innanborðs. „Blur ætlar að æfa saman og síðan kemur í ljós hvort við erum til í tuskið," sagði Albarn, skömmu áður en hann flutti óperu sína Monkey: Journey to the West í London.
Síðasta plata Blur, Think Tank, kom út fyrir fimm árum og spilaði Coxon þá aðeins í einu lagi eftir að hafa yfirgefið sveitina árið áður. Eftir plötuna fór Blur í pásu og Albarn sneri sér að teiknimyndasveitinni Gorillaz. Síðast gaf hann út plötu með hljómsveitinni The Good, the Bad and the Queen.