Landsliðsfyrirliðinn Rakel Dögg Bragadóttir skrifaði í dag undir tveggja ára samning við danska félagið KIF Vejen. Hún hefur leikið með Stjörnunni frá því hún var sextán ára gömul en hún er í dag 22 ára gömul.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stjörnunni í dag. Kolding lenti í fimmta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar á nýliðnu tímabili en félagið er búið að vera í efstu deild undanfarinn áratug.
Rakel hefur orðið Íslandsmeistari með Stjörnunni undanfarin tvö ár og bikarmeistari nú í ár. Alls hefur hún spilað 95 leiki með félaginu og skorað í þeim 423 mörk. Hún á að baki 51 leiki með landsliðinu og 156 landsliðsmörk.