Áhorfendur risu úr sætum sínum og fögnuðu ákaft eftir frumsýningu á nýjasta leikverki Vaclavs Havel í Prag í gær.
Þetta er fyrsta leikverk Havels í tuttugu ár og gagnrýnendur fóru einnig um það lofsamlegum orðum.
Leikritið heitir Brotthvarf og í stórum dráttum fjallar það um leiðtoga í einræðisríki sem er að fara frá völdum.
Vaclav Havel var andófsmaður á tímum kommúnistastjórnarinnar í Tékkóslóvakíu sem þá hét. Hann fór svotil beint úr fangelsi í forsetastólinn í flauelsbyltingunni árið 1989, þegar kommúnistar hrökkluðust frá völdum.
Því embætti gegndi hann í 13 ár og aflaði sér virðingar og vina víða um heim.
Hann heimsótti Ísland til þess að sjá uppsetningu á einu verka sinna, meðan Vigdís Finnbogadóttir var forseti landsins.
Þeim varð vel til vina, enda bæði leikhúsmanneskjur.