Handbolti

Snorri Steinn þarf í aðra aðgerð

Snorri Steinn stefnir á að fara í aðgerð á næstu dögum
Snorri Steinn stefnir á að fara í aðgerð á næstu dögum AFP
Landsliðsmaðurinn Snorri Steinn Guðjónsson mun væntanlega fara í annan hnéuppskurð á næstu dögum til að láta fjarlægja beinflís úr hnénu á sér.

Snorri, sem leikur með GOG í Danmörku, fór í aðgerð vegna sama vandamáls í september og fór svo í endurhæfingu og spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið fyrir nokkrum dögum.

Fljótlega varð ljóst að ekki var allt með felldu og hefur Snorri nú fengið staðfest af lækni hér á landi að flísin í hnénu á honum er að öllum líkindum sú sama og mynduð var fyrr í haust.

Þetta er grátleg niðurstaða fyrir Snorra sem fyrir vikið er væntanlega úr leik með GOG og landsliðinu fram í febrúar eða mars.

Hann íhugar að fara í aðgerð heima á Íslandi í þetta sinn og það jafnvel á allra næstu dögum.

"Þetta þýðir það auðvitað að þessi hluti tímabilsins er bara ónýtur. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Það eru vonbrigði og erfitt að kyngja því að maður hafi farið í tilgangslausa aðgerð. Ég vona þá að ég verði bara tilbúinn í febrúar þegar skemmtilegasti hluti tímabilsins fer í gang," sagði Snorri í samtali við Vísi.

GOG lenti í milliriðli með Ciudad Real, Kiel og Barcelona í Meistaradeildinni og því er ljóst að verðugt verkefni bíður danska liðsins á þeim vettvangi. Ciudad og Kiel hafa með sér tvö stig í milliriðilinn og GOG mætir ekki Ólafi Stefánssyni og félögum í Ciudad í milliriðli þar sem liðin léku saman í riðli í undanriðlum. Snorri fagnar því að leika í þessum ógnarsterka riðli.

"Þessi riðill hefði alveg geta verið auðveldari, en á sama hátt hefði hann kannski ekki geta verið skemmtilegri. Ciudad Real og Kiel eru klárlega tvö bestu liðin í heiminum í dag og ég held að þurfi eitthvað mikið að gerast svo þau leiki ekki til úrslita," sagði Snorri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×