UEFA bikarkeppnin mun frá og með næsta keppnistímabili heita Evrópudeildin eða Europa League.
Þetta var tilkynnt í dag en keppnin verður einnig með breyttu fyrirkomulagi á næsta tímabili. Þá verða 48 lið í riðlakeppninni í tólf riðlum, þar sem leikið verður bæði heima og að heiman.
Tvö efstu liðin í hverjum riðli komast svo áfram í 32-liða úrslitin ásamt þeim átta liðum sem verða í þriðja sæti sinna riðla í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
„Ég er viss um að nýja fyrirkomulagið muni efla keppnina. Breytingarnar munu hafa mikil áhrif á þessa söguríku keppni sem er mjög mikilvægt fyrir Knattspyrnusamband Evrópu og evrópska knattspyrnu. Nú fá fleiri stuðningsmenn, leikmenn og félög að kynnast því að taka þátt í Evrópukeppnum," sagði Michel Platini, forseti UEFA.