Handbolti

Pólland og Rússland mætast í leik um 5. sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rússar fagna sigrinum í dag.
Rússar fagna sigrinum í dag. Nordic Photos / AFP
Pólland og Rússland unnu leiki sína í undanúrslitum í keppni um 5.-8. sæti í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Peking.

Pólland vann þriggja marka sigur á Suður-Kóreu, 29-26, eftir a hafa verið með eins marks forystu í hálfleik, 15-14. Þeir voru með undirtökin í öllum leiknum og náðu fimm marka forskoti undir lok leiksins en Suður-Kórea skoraði síðustu tvö mörkin.

Danir eru greinilega enn að jafna sig eftir áfallið sem þeir urðu fyrir eftir að liðið tapaði fyrir Króatíu í fjórðungsúrslitum keppninnar. Evrópumeistararnir urðu að játa sig sigraða fyrir Rússum, 28-27.

Staðan í hálfleik var 17-14, Rússum í vil en þeir byrjuðu gríðarlega vel og komust í 8-3 forystu. Dönum tókst að jafna metin í 13-13 en Rússar svöruðu með góðum leikkafla í lok hálfleiksins.

Aftur tókst Dönum að jafna metin er tólf mínútur voru til leiksloka og þeim tókst svo að komast tveimur mörkum yfir er tvær mínútur voru eftir. En Rússum tókst þá að skora þrjú síðustu mörk leiksins og tryggja sér þar með sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×