Handbolti

Stuðningsmenn grátbáðu Ólaf að fara ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur í leik með Ciudad Real.
Ólafur í leik með Ciudad Real. Mynd/Vilhelm
Stuðningsmenn spænska liðsins Ciudad Real grátbáðu í gær Ólaf Stefánsson um að fara ekki frá félaginu.

Ciudad Real var að spila við Ademar Leon í spænsku deildinni og skoraði Ólafur þrjú mörk í leiknum.

„Óli, ekki fara," var sungið á áhorfendapöllunum en Ólafur ítrekaði eftir leik að hann væri líklega á leið annað.

„Ég er virkilega stoltur af þeim stuðningi sem áhorfendur sýndu mér en ég hef þegar sagt að ég þarf á breytingu að halda. Þetta er eitt besta félag hans en ég þarf að finna nýja áskorun," sagði Ólafur í samtali við spænska fjölmiðla.

Ólafur var þegar búinn að semja við danska C-deildarliðið AG Håndbold en er nú líklega á leið til þýska úrvalsdeildarfélagsins Rhein-Neckar Löwen.

„Ég vil sem minnst segja um málið á þessu stigi þar sem það á enn eftir að taka nokkrar mikilvægar ákvarðanir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×