Fótbolti

Kaka bestur hjá World Soccer

NordicPhotos/GettyImages

Tímaritið World Soccer útnefndi í dag brasilíska miðjumanninn Kaka hjá AC Milan leikmann ársins. Þetta er önnur stór viðurkenning þessa frábæra leikmanns á stuttum tíma, en hann var valinn leikmaður ársins í Evrópu af France Football á dögunum.

Lionel Messi hjá Barcelona varð annar í kjörinu hjá World Soccer og Christiano Ronaldo hjá Manchester United varð þriðji. Messi var valinn besti ungi leikmaðurinn af tímaritinu annað árið í röð.

Það voru lesendur tímaritsins í 48 löndum sem m.a. stóðu að valinu og þar fékk Kaka ríflega helming atkvæða - aðeins í annað skipti í sögunni sem maður fær slíka yfirburðakosningu. Hinn var Michel Platini árið 1984.

Sir Alex Ferguson var kjörinn þjálfari ársins af World Soccer og er það í þriðja sinn á ferlinum sem hann hlýtur þann heiður. Juande Ramos hjá Tottenham varð annar í kjörinu fyrir árangur sinn með Sevilla og Carlo Ancelotti hjá AC Milan varð þriðji.

Ekki þyrfti að koma á óvart ef Kaka fullkomnaði frábæra verðlaunaþrennu sína í næstu viku þegar FIFA velur knattspyrnumann ársins við hátíðlega og árlega athöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×