Kristinn Jakobsson dæmdi leik Spartak Moskvu og Bayer Leverkusen í E-riðli UEFA-bikarkeppninnar í kvöld.
Spartak vann leikinn, 2-1, en rússneska liðið skoraði bæði mörkin úr vítaspyrnum í síðari hálfleik. Paul Freier minnkaði muninn fyrir Leverkusen á lokamínútu leiksins.
Kristinn gaf þrjár áminningar í leiknum, allar á níu mínútna kafla í síðari hálfleik. Heimamenn fengu tvær og leikmaður Leverkusen þá þriðju.
Í umfjöllun Kölner Stadt-Anzeiger um leikinn er ekki skrifað um annað en að vítaspyrnudómarnir hafi átt fullan rétt á sér. Greinarhöfundur segir að leikmenn Leverkusen hafi verið sjálfum sér verstir og brotið heimskulega af sér, sérstaklega í fyrra vítinu.