Erlent

Kate McCann er sorgmædd og einmana

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Hjónin hafa sýnt mikla stillingu þrátt fyrir gífurlegt álag eftir að Madeleine hvarf.
Hjónin hafa sýnt mikla stillingu þrátt fyrir gífurlegt álag eftir að Madeleine hvarf. MYND/AFP
Tár Kate McCann sem féllu í sjónvarpsviðtali eru ekkert miðað við þá sorg sem hún hefur falið fyrir myndavélum. Þetta sagði talsmaður fjölskyldunnar eftir að kate brotnaði saman í viðtali við hana og Gerry á spánskri sjónvarpsstöð í gær.

Viðtalið veittu þau til að vekja athygli á nýrri símaþjónustu sem taka mun við upplýsingum um Madeleine.

Hjónin töluðu um lífið án dóttur þeirra sem hvarf fyrir hálfu ári. Þau lýstu henni sem ástríkri og hamingjusamri lítilli stúlku.

„Ég er sorgmædd og ég er einmana og líf okkar er ekki eins hamingjuríkt án Madeleine," sagði Kate og bætti við að hún væri áhyggjufull yfir því að dóttir þeirra væri ekki hjá þeim.

Gerry sagði eitt það erfiðasta verkefni sem hann hefði tekist á við eftir hvarf Madeleine, hefði verið að segja tvíburunum að hann vissi ekki hvenær stóra systir þeirra kæmi aftur.

„Það erfiðasta fyrir mig er þegar tvíburarnir spyrja, „Hvenær kemur Madeleine aftur heim?" Og við þurfum að viðurkenna að við vitum það ekki, en að allir séu að leita að henni."

Hjónin hafa verið gagnrýnd, og þá sérstaklega Kate, fyrir að sýna stillingu í fjölmiðlum fram til þessa. Clarence Mitchell talsmaður þeirra segir það hámark hrokans að halda því fram að fólk verði að haga sér á ákveðinn hátt. Að það sé ekki rétt ef einhver gráti ekki.

„Kate og Gerry gráta mikið heima fyrir. Ég hef orðið vitni að því, en það sannar ekkert. Þau eru venjulegt tilfinningaríkt fólk eins og ég og þú."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×