Forsætisráðherra Danmerkur telur allt í lagi að nota upplýsingar sem fengnar eru með pyntingum, ef þær geta komið í veg fyrir hryðjuverk í Danmörku.
Anders Fogh Rasmussen, sagði þetta á fundi með fréttamönnum í dag. Ráðherrann lagði áherslu á að Danir fordæmtu pyntingar og þær væru bannaðar í landinu.
Danmörk væri hinsvegar í sambandi við leyniþjónustur og lögreglu í um allan heim. Þeim væri kunnugt um að í sumum þessara landa væru menn pyntaðir til sagna.
Anders Fogh sagði að þótt Danir væru algerlega á móti pyntingum þá gætu yfirvöld ekki leitt hjá sér upplýsingar sem vörðuðu öryggi þegnanna. Jafnvel þótt þau grunaði að þær upplýsingar hefðu verið fengnar með pyntingum.