Ehud Olmert forsætisráðherra Ísraels og Mahmoud Abbas forseti Palestínumanna náðu í dag samkomulagi um aðskipa sameiginlega nefnd til þess að kortleggja sjálfstætt ríki palestínumanna. Leiðtogunum er í mun að hafa náð einhverjum árangri áður en Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna kemur til Miðausturlanda í næstu viku.
Olmert og Abbas hafa hist reglulega síðan Hamas samtökin hertóku Gaza ströndina í júní síðastliðnum. Þessum tvíhliða fundum og og fundinum með Rice er meðal annars ætlað að styrkja Abbas í sessi sem forseta allra Palestínumanna. Allt er þetta svo undirbúningur undir ráðstefnu í nóvember. Vonast er til þess að hún leiði til þess að friðarviðræður verði haldnar á nýjan leik.