Viðskipti innlent

Kaupþing spáir aukinni verðbólgu

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings. Deildin spáir því að verðbólga fari úr 3,4 prósentum í 4,2 prósent í september.
Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings. Deildin spáir því að verðbólga fari úr 3,4 prósentum í 4,2 prósent í september. Mynd/E.Ól.

Greiningardeild Kaupþings spáir því að vísitala neysluverð muni hækka um 1,3 prósent í september. Við það hækkar verðbólgan úr 3,4 prósentum í 4,2 prósent. Deildin telur líkur á að umsvif á fasteignamarkaði muni kólna fljótt í ljósi hækkandi vaxtakjara og erfiðara aðgengi að lánsfé og reiknar með að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist eftir tvö ár.

Greiningardeildin segir að verðbólga mælist almennt há í september þar sem útsöluáhrif séu að fjara út. Þannig muni útsölulokin, áframhaldandi hækkun á fasteignaverði, hækkun á matvöruverði leiða hækkunina.

Deildin segir ennfremur að nýjustu upplýsingar frá Fasteignamati ríkisins bendi til að talsverð velta sé enn á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu og útlit fyrir að áhrifa hækkandi íbúðaverðs muni gæta á næstu mánuðum.

Greiningardeild gerir einnig ráð fyrir ýmsum þjónustuverðshækkunum sem má rekja til kostnaðaráhrifa vegna launahækkana síðustu mánuði.

Þá spilar gengishækkun krónunnar á fyrri hlut árs inn í spánna. Deildin telur líkur á að það hafi dregið úr frekari verðhækkunum en ella hefðu orðið. „Sú hætta er því nú fyrir hendi að með lækkandi gengi krónunnar muni talsverður verðbólguþrýstingur stíga fram, þó svo að sú gengislækkun hafi að einhverju leyti gengið tilbaka. Hækkandi launakostnaður fyrirtækja í kjölfar launahækkana á árinu hefur smám saman verið að skila sér út í verðlag til neytenda," segir greiningardeild Kaupþings.

Verðbólguspá Kaupþings





Fleiri fréttir

Sjá meira


×