Portúgalska lögreglan segir að hugsanlegt sé að litla breska telpan Madeleine McCann sé látin. Fram að þessu hefur verið litið á hvarf hennar sem mannrán. Eitthundrað dagar eru nú liðnir frá því Madeleine hvarf. Þetta er í fyrsta skipti sem portúgalska lögreglan ljáir máls á því að hún hafi verið myrt. Lögregluforingi sem stýrir rannsókninni segir að foreldrarnir liggi ekki undir grun.
Ástæðan fyrir þessari hugarfarsbreytingu eru blóðsýni sem ekki voru sjáanleg, en sem breskur lögregluhundur fann í herberginu þar sem Madeleine svaf. . Þessi sýni eru nú til rannsóknar í Bretlandi, til að ganga úr skugga um hvort þau séu úr henni.
Lögregluforinginn sagði að fleiri sýni hefðu fundist en blóðsýni, en upplýsti ekki hvers eðlis þau væru. Hann vildi ekki staðfesta fréttir um að lögregluhundurinn hefði fundið lykt af líki í herberginu.
Madeleine litla kann að vera látin
Óli Tynes skrifar
