Bresk stjórnvöld hafa rekið fjóra rússneska diplomata úr landi, vegna tregðu Rússa til að framselja meintan morðingja Alexanders Litvinenkos. Litvinenko var myrtur með geislavirku eitri í Lundúnum á síðasta ári. Rússar segjast munu bregðast við þessu útspili Breta.
Alexander Litvinenko var fyrrverandi KGB njósnari sem flúði til Bretlands . Hann var óvæginn gagnrýnandi Pútins forseta. Litvinenko veiktist hastarlega eftir fund á veitingahúsi í Lundúnum. Á fundinum var meðal annara Andrei Lugovoy sem einnig er fyrrverandi leyniþjónustumaður.
Bretar telja sig hafa sannanir fyrir því að Lugovoy hafi sett eitrið út í te sem Litvinenko drakk. Litvinenko dó kvalarfullum dauðdaga og á banabeðinu skrifaði hann bréf þar sem hann sakaði Vladimir Putin um að hafa fyrirskipað morðið.
Áratugir eru síðan rússneskir diplomatar hafa verið reknir frá Bretlandi.