Lögreglan á suðurhluta Ítalíu handtók í dag fleiri en 60 manns í aðgerðum gegn mafíunni á svæðinu en hún kallast 'Ndrangheta. Meðlimir hennar eru grunaðir um smygl á eiturlyfjum, fólki og tryggingasvindl. 'Ndrangheta er staðsett í Kalabríu, rétt suður af Napólí, og er orðin stærri en Cosa Nostra mafían sem hefur aðsetur á Sikiley.
Það á hún að þakka fjölskyldutengslum og hentugleikahjónaböndum við aðrar mafíufjölskyldur. Þá er talið að 'Ndrangheta hafi borgað í kosningasjóði bæjarfulltrúa og svæðisstjórna á suðurhluta Ítalíu.