Erlent

Marsjeppi á barmi hyldýpis

Viktoríugígurinn
Viktoríugígurinn MYND/ap

Geimjeppi Nasa Opportunity sem ekur um reikistjörnuna Mars og safnar gögnum til rannsókna á henni stendur frammi fyrir nýju og krefjandi verkefni. Honum er ætlað að renna niður í djúpan loftsteinagíg á yfirborði Mars og safna þar sýnum. Förin er hættuleg og gera Nasaliðar ekki ráð fyrir að jeppanum verði afturkvæmt úr gígnum. Frá þessu er greint á vef Herald tribune.

Viktoríugígurinn er um 700 metrar í þvermál og 60 til 70 metra djúpur. Gígurinn er því mikil áskorun fyrir jeppan sem er ekki vanur miklu þverhnípi.

Vísindamönnum við Nasa þykir þó mögulegur ávinningur svaðilfararinnar nægur til að taka áhættu. Þá vilja þeir nota tækifærið á meðan jeppinn er í góðu ásigkomulagi. Með sýnum úr gígnum er vonast til að hægt verði að líta enn lengra aftur í jarðfræðilega sögu Mars.

Opportunity lenti á Mars ásamt öðrum álíka jeppa, Spirit, í janúar 2004. Í þrjú og hálft ár, eða 1200 Marsdaga, hafa jepparnir reynst heilladrjúgir í rannsóknum af rauðu plánetunni. Til dæmis hafa þeir fundið merki um vatn og tekið ógrynni af mikilvægum myndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×