Tvær járnbrautarlestir, önnur frá Norður-Kóreu með fimmtíu manns innanborðs, hin frá Suður-Kóreu með hundrað manns innanborðs, fóru yfir landamæri ríkjanna í morgun. Þetta eru fyrstu lestarsamgöngur á milli ríkjanna tveggja frá því að Kóreustríðið hófst árið 1950.
Mikil hátíðarhöld fylgdu þessum lestarferðum og frá þeim var sýnt á öllum suðurkóresku sjónvarpsstöðvunum. Farþegar lestanna báru vitni um höfðinglegar móttökur beggja vegna landamæranna. Ríkin tvö hafa verið aðskilin í 57 ár en lestarferðirnar eru til marks um batnandi sambúð þeirra.