Innlent

Yfir helmingur veitingahúsa lækkaði ekki verð 1. mars

Meira en helmingur veitingahúsa og sjötíu prósent mötuneyta lækkuðu ekki verð hjá sér eftir 1. mars þegar virðisaukaskattur á matvæli lækkaði. Þetta kemur fram í skýrslu Neytendastofu. Um 400 ábendingar bárust frá almenningi til stofunnar.

Viðskiptaráðherra óskaði eftir því að Neytendastofa hefði eftirlit með því hvort skattalækkunin 1. mars myndi skila sér í verðlækkun til neytenda. Eftirlitið náði til 84 veitinga og kaffihúsa. Forstjóri Neytendastofu kynnti viðskiptaráðherra niðurstöður sínar í morgun.

Í 54 prósentum tilvika var verðið óbreytt eða hærra eftir 1. mars. Um 200 ábendingum frá almenningi vegna veitinga- og kaffihúsa var fylgt eftir með bréfum til fyrirtækjanna. 47 prósent þeirra svöruðu og sögðust þegar hafa lækkað. Í 53 prósentum tilvika bárust ekki svör eða þau kváðust ekki ætla að lækka.

Neytendastofa getur þó ekki beitt þessi fyrirtæki viðurlögum enda er verðlagning frjáls. Aðeins tólf mötuneyti lækkuðu hjá sér verð eftir 1. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×