Fulltrúar frá Afganistan og öðrum þjóðum mæltu viðvörunarorð vegna ástandsins í Afganistan á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í kvöld. Hver á fætur öðrum steig í pontu og bentu allir á að ofbeldi í landinu væri enn að aukast, fíkniefnastarfsemi hvers konar blómstraði og hægt gengi að byggja upp stofnanir í landinu.
Fastafulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Afganistan hnykkti síðan út með því að fullyrða að ríki heimsins hefðu vanmetið erfiðleikana við uppbyggingu landsins.
Fulltrúar Ítalíu og Rússlands sögðust hafa áhyggjur af auknu ofbeldi í landinu og sögðu að meira yrði að gera. Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum sagði að um tímamót væri að ræða í Afganistan um þessar mundir. Hún tók þó fram að ekki væri hægt að treysta á hervald til þess að ná fram stöðugleika í hinu stríðshrjáða landi.
Betur má ef duga skal í Afganistan
