Sport

Mikki Massi kominn í Honda liðið

Mikael B. David, eða Mikki Massi eins og flestir þekkja hann, hefur skipt yfir í Honda
Mikael B. David, eða Mikki Massi eins og flestir þekkja hann, hefur skipt yfir í Honda MYND/ Bjarni Bærings

Mikael B. David, eða Mikki Massi eins og hann er gjarnan kallaður, hefur skipt um gír og mun keppa fyrir Honda liðið í sumar.  Mikki er gífurlega öflugur ökumaður, hefur náð stórstígum framförum síðustu ár og ætlar sér að fara alla leið í Íslandsmótinu í mótorkrossi í sumar.

Mikki keppti fyrir Yamaha liðið síðustu tvö ár en hefur einnig ekið KTM og Kawasaki.  Mikki er kominn á 2007 árgerð af Honda CRF 450R og hefur verið á stífum æfingum á hjólinu síðustu vikur.  Mikki reiknar með að keppa á þessu hjóli, en í fyrra ók hann 250cc fjórgengishjóli.

"Ég fann það í fyrra að ég var búinn að taka allt út úr 250cc hjólinu sem hægt var að ná, var í góðu formi og hafði nægan styrk til að ráða við öflugra hjól.  450cc hjólið er töluvert öflugra og hefur þann kraft sem þarf í toppbaráttuna í sumar. Ég er klár í slaginn í sumar, kominn á frábært hjól og ætla að fara alla leið í þetta skiptið - Íslandsmótið verður ágætis upphitun fyrir Motocross des Nations keppnina í Bandaríkjunum, en þar á ég heima og ég ætla mér að komast þangað í haust!!!" sagði Mikki, eldhress, brattur og kátur við blaðamann Visir.is.

Það verður síðan að koma í ljós í sumar hvort Mikki standi við stóru orðin og spóli sig upp á verðlaunapallana. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×