Bíó og sjónvarp

Stærsta verkefni Hómers Simpson

Hómer Simpson býr sig undir átökin í kvikmyndinni um Simpson-fjölskylduna.
Hómer Simpson býr sig undir átökin í kvikmyndinni um Simpson-fjölskylduna.

Simpson-fjölskyldan mætir í íslensk kvikmyndahús á morgun. Sú heimsókn á eflaust eftir að gleðja marga Íslendinga enda hafa þau Hómer, Marge, Bart, Lísa og Maggie verið heimilisvinir okkar síðustu 18 árin.



Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Matt Groening var beðinn um að redda nokkrum 30 sekúndna teiknimyndum til að fylla upp í göt í skemmtiþætti Tracy Ullman á Fox-sjónvarpsstöðinni í lok níunda áratugarins. Síðan þá hafa verið framleiddir 400 margverðlaunaðir Simpson-þættir og er þáttaröðin orðin sú langlífasta í sögu bandarísks sjónvarps. Aðdáendur Simpson-fjölskyldunnar hafa lengi beðið eftir að gerð yrði kvikmynd um aðalsöguhetjurnar og nú er biðin á enda. Simpson-kvikmyndin verður frumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum á morgun, bæði með íslensku og ensku tali.



 

Æstur Springfield-lýður Homer berst fyrir því að bjarga bænum sínum. Það reynist ekki alltaf þakklátt starf.
Söguþráður Simpsons-myndarinnar er á þá leið að Hómer verður að bjarga Springfield og heiminum öllum frá vandræðum sem hann skapaði auðvitað sjálfur. Inn í vandræðin blandast Arnold Schwarzenegger sem orðinn er forseti Bandaríkjanna. Eftir því sem málin flækjast þarf Hómer að takast á við næstum óvinnandi vígi; að fá Marge til að fyrirgefa sér allar misgjörðirnar, sameina sundraða fjölskylduna að nýju en um leið að bjarga ástkærum heimabænum, Springfield, frá glötun.



Mikil vinna var lögð í handrit myndarinnar og voru fengnir til verksins allir bestu handritshöfundar sem hafa skrifað Simpson-þætti í gegnum árin. Þar á meðal James L. Brooks sem var einn af fyrstu handritshöfundunum en hefur haldið sig til baka hin seinni ár. Sömu raddir gefa persónunum líf og í þáttunum, aðalhlutverkin eru í höndum Dan Castellaneta, Julie Kavner, Nancy Cartwright, Yeardley Smith, Hank Azaria, Harry Shearer, Pamela Hayden og Tress MacNeille. Auk þeirra talar Albert Brooks í myndinni.



Simpson-kvikmyndin verður frumsýnd á morgun í átta kvikmyndahúsum, bæði með íslensku og ensku tali eins og áður segir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×