Tónlist

Bakkabræður vildu Nínu og Álfheiði Björk

Pétur Örn Guðmundsson og félagar í Dúndurfréttum fengu væna summu fyrir að skemmta Bakkavararbræðrum um helgina.
Pétur Örn Guðmundsson og félagar í Dúndurfréttum fengu væna summu fyrir að skemmta Bakkavararbræðrum um helgina.

Þrír meðlimir hljómsveitarinnar Dúndurfrétta mættu í veiðihúsið við Kjarrá síðastliðinn sunnudag til þess að spila fyrir góðan hóp gesta. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fóru Bakkavararbræður þar fremstir í flokki og buðu þeir upp á bæði dýrindis kálfakjöt og eðalvín.



Pétur Örn Guðmundsson, söngvari Dúndurfrétta, sagðist ekki geta staðfest þær fréttir að Bakkavararmenn hefðu staðið fyrir veislunni. „Ég þekki ekki andlitið á neinum sem er ríkari en ég,” segir hann og hlær. „Við vorum beðnir um að koma þarna með örskömmum fyrirvara og gerðum það. Umboðsmaðurinn okkar fékk beiðni um að redda einhverjum sem gæti sungið og spilað. Við vorum að keyra frá Sauðárkróki á sunnudagseftirmiðdegi þegar hann hringdi og bað um að við myndum renna þarna upp eftir.“



Drengirnir munu hafa fengið væna fúlgu fyrir spilamennskuna, allt að 150 þúsund krónur á mann. „Við fengum að minnsta kosti betur borgað en gengur og gerist fyrir svona,“ segir Pétur sem ekki er fáanlegur til þess að gefa upp nákvæma krónutölu. „Við vorum mjög sáttir við okkar hlut og ég held sömuleiðis að gestirnir hafi verið sáttir við okkur.“ Lagalistinn samanstóð að mestu af íslenskum stuðlögum samkvæmt Pétri. „Þeir voru duglegir að biðja um Nínu og Álfheiði Björk. Við þurftum að spila þau lög þrisvar sinnum en tókum aðeins í taumana þegar beðið var um þau í fjórða skiptið,“ segir hann og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×