Viðskipti innlent

Glitnir spáir 7 prósenta verðbólgu

Glitnir.
Glitnir.

Greiningardeild Glitnis segir útlit fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,1 prósent á milli nóvember og desember. Gangi spáin eftir lækkar verðbólga úr 7,3 prósentum í 7,0 prósent í desember.

Deildin segir í Morgunkorni sínu í dag að eldsneytisverð hafi lækkað frá síðustu mánaðarmótum en í ljósi gengisþróunar krónunnar megi búast við að a.m.k. hluti þeirrar verðlækkunar gangi til baka. Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur þó verið fremur stöðugt að undanförnu. Reiknað er með minniháttar hækkun á eldsneyti á næstu dögum en að heildaráhrifin séu þó áfram til lækkunar.

Þá lækkar íbúðaverð eða stendur í stað um þessar mundir en aukinn vaxtakostnaður vegur á móti og hefur áhrif til hækkunar vísitölunnar, að mati deildarinnar sem telur flest benda til þess að íbúðakostnaður aukist nú lítilsháttar þrátt fyrir verðlækkun og hafi þannig óveruleg áhrif til hækkunar vísitölunnar í desember.

Þá spáir deildin minniháttar verðhækkun á matvöruverði í næsta mánuði.

Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs 12. desember næstkomandi.

Greiningardeild Glitnis






Fleiri fréttir

Sjá meira


×